Við óbreyttar gjaldeyrisreglur hefði getað myndast kapphlaup milli slitastjórna föllnu bankanna um að greiða kröfuhöfum. Þetta segir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri. „Þær taka auðvitað ákvarðanir hver fyrir sig. Það gæti myndast einhvers konar kapphlaup milli þeirra að útgöngudyrunum. Sá sem væri fljótastur að leysa upp eignir, segjum til dæmis fyrir skilaskyldan gjaldeyri, og koma honum út, hann gæti sloppið. Þeir sem seinna kæmu yrðu fyrir skelli, þar sem krónan veikist í ferlinu. Slíkt myndi skemma verðmætustu eignirnar. Ef slíkt kapphlaup myndast gæti niðurstaðan orðið engum í hag, ekki heldur kröfuhöfunum sjálfum. Nýju bankarnir eru mjög verðmætar eignir og kapphlaup myndi skemma þessar eignir, það yrðu útlánatöp.“

Áhrif breyttra reglna munu hafa töluverð áhrif á greiðsluáætlanir slitastjórnanna til lengri tíma litið. Þeim er heimilt að ráðstafa án kvaða þeim gjaldeyri sem þær eiga fyrir á erlendum bankareikningum og hjá Seðlabankanum. Hins vegar ber þeim núna að skila til landsins öllum þeim gjaldeyri sem skapast frá gærdeginum, bæði í gegnum vaxtagreiðslur og eignasölu. Seðlabankinn vill að sögn Arnórs hafa samráð um framhaldið og sérstaklega um sölu slitastjórna á stórum eignum. „Við viljum þá sjá þeirra áætlanir og að þær miði að sem minnstum óstöðugleika.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.