Seðlabankinn getur ekki greint frá því hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að slitastjórnir gömlu bankanna geti gengið til nauðasamninga. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi um stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar í dag að bankinn vilji ekki sýna það spil. Ferlið standi yfir og unnið sé að útfærslum.

Hann sagði þó ljóst að uppfylla þurfi skilyrði um að greiðslur úr þrotabúum raski ekki fjármálastöðugleika og leiði ekki til verri greiðslujöfnuðar. Hann sagði að gengið yrði frá málum þannig að hvert þrotabú sé í lagi. Ekki sé hægt að veita undanþágur ef þær raska stöðugleika.

Síðasta föstudag tilkynnti slitastjórn Glitnis um að það takist ekki að leggja fram frumvarp að nauðasamningi í desember eins og að var stefnt. Slitastjórnin vísaði í tilkynningu í orð Más um nauðsynlegar forsendur sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að Seðlabankinn geti gefið samþykki fyrir nauðsamningum.