Seðlabankinn fer þess á leit að ríkissjóður endurgreiði sektir vegna brota á reglum um gjaldeyrismál fyrir tímabilið áður en refsiheimildir voru lögfestar árið 2011, sem liður í endurskoðun sektarákvarðana og sætta sem gerð voru á tímabilinu. Megi hlutaðeigandi aðilar því eiga von á bréfi frá Seðlabanka Íslands þar að lútandi segir í tilkynningu frá bankanum.

Hér má lesa læsilega tilkynningu Seðlabankans í heild sinni:

Umboðsmaður Alþingis birti í lok janúar álit nr. 9730/2018 vegna kvörtunar einstaklings á afgreiðslu Seðlabanka Íslands á kröfu hans um að Seðlabankinn afturkallaði, að eigin frumkvæði, stjórnvaldsákvörðun vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál. Það er meðal annars niðurstaða umboðsmanns að við meðferð málsins hafi Seðlabankinn ekki tekið afstöðu til röksemda sem lutu að ummælum ríkissaksóknara um gildi laga og reglna um gjaldeyrismál, sem refsiheimilda, sem fram komu í afstöðu hans til sex mála frá 20. maí 2014.

Eins og fram kom í yfirlýsingu Seðlabankans sem birt var hinn 19. febrúar sl. í tilefni álits umboðsmanns hefur bankinn ráðist í ítarlega skoðun á því hvað í álitinu felst. Meginatriði skoðunarinnar er hvort til staðar hafi verið fullnægjandi heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir eða refsa með öðrum hætti fyrir brot gegn fjármagnshöftum frá því að þeim var komið á undir lok árs 2008 og þar til lögum um gjaldeyrismál var breytt síðla árs 2011. Nánar tiltekið hvort þær reglur sem settar voru á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál teldust fullnægjandi refsiheimild, þ.e. hvort það framsal Alþingis á lagasetningarvaldi sem fólst í ákvæðinu fullnægði kröfum stjórnarskrár og hvort viðurlagaákvæði laganna og bráðbirgðaákvæðisins teldust nægjanlega skýr til að beita mætti refsingum eða stjórnvaldssektum á grundvelli þeirra vegna brota á reglunum.

Þetta álitaefni hefur verið til umræðu frá því að fjármagnshöftum var komið á og hefur Seðlabankinn fengið utanaðkomandi lögfræðiálit sem hafa verið samhljóma um að líkur séu til þess að skilyrðum um framsal lagasetningavalds og skýrleika refsiheimilda sé fullnægt, enda liggi ekki fyrir skýr dómafordæmi á annan veg. Þá hefur ráðuneytið, sem farið hefur með þennan málaflokk, verið sama sinnis. Enn fremur var þetta niðurstaða Lagastofnunar Háskóla Íslands í úttekt á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits sem unnin var fyrir bankaráð Seðlabankans. Þá hefur Seðlabankinn talið vilja löggjafans skýran um þetta efni og því framfylgt fjármagnshöftunum með viðurlögum í ljósi þeirra ríku almannahagsmuna sem þeim var ætlað að vernda. Seðlabankinn hefur einnig litið svo á að það væri vart í hans valdi að úrskurða gegn því fyrirkomulagi sem Alþingi ákvað þegar fjármagnshöftum var komið á og telur að til þess hefði þurft að koma til skýr afstaða frá ákæruvaldi eða niðurstaða dómstóla.

Seðlabankinn hefur við framkvæmd laga og reglna um gjaldeyrismál ályktað að afstaða ríkissaksóknara, sem umboðsmaður vísar til í áliti sínu, fæli ekki í sér endanlega úrlausn ákæruvaldsins um gildi reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimilda. Sú ályktun var m.a. byggð á síðari afstöðu ríkissaksóknara í máli vegna ætlaðra brota á reglum um gjaldeyrismál, þar sem ríkissaksóknari m.a. leiðbeindi Seðlabankanum um að hann gæti kært mál gegn reglum um gjaldeyrismál til lögreglu að þeim skilyrðum uppfylltum að þau teljist meiri háttar, án þess að nokkuð kæmi fram um efasemdir um gildi þeirra. Þá hefur verið litið til þess að lögregla réðst í húsleitir, haldlagði gögn og rannsakaði mál vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Þá voru jafnframt gefnar út ákærur vegna brota á þeim. Auk þess hélt rannsókn mála vegna brota á reglum um gjaldeyrismál áfram hjá lögreglu eftir að áðurnefnd afstaða ríkissaksóknara lá fyrir auk þess sem mál voru endursend Seðlabankanum til meðferðar og ákvörðunar. Var framangreint talið til marks um að það væri einungis á færi dómstóla að skera úr um gildi reglna um gjaldeyrismál.

Vegna álits umboðsmanns Alþingis ritaði Seðlabankinn ríkissaksóknara bréf þar sem þess var óskað að ríkissaksóknari skýrði frekar þau ummæli um gildi reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimilda sem fram komu í fyrrnefndum ákvörðunum hans. Í svarbréfi ríkissaksóknara sem barst Seðlabankanum undir lok síðustu viku segir að mat hans sé að reglur um gjaldeyrismál gátu ekki talist gild refsiheimild fyrr en þær voru lögfestar með lögum nr. 127/2011. Með bréfinu er þar með tekinn af allur vafi um að mat ríkissaksóknara, sem æðsta handhafa ákæruvalds, sé að reglusetningarheimild í bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál hafi ekki uppfyllt áðurnefnd skilyrði um framsal lagasetningarvalds og skýrleika refsiheimilda. Þar með gætu reglur um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, ekki talist gildar sem refsiheimild. Seðlabankinn hafði reyndar áður óskað eftir afstöðu ríkissaksóknara til þessa bréflega árið 2012 en þeirri fyrirspurn var á sínum tíma ekki svarað af hálfu ríkissaksóknara þar sem talið var að slíkt svar hefði getað skapað ríkissaksóknara vanhæfi í öðrum málum sem voru til meðferðar á þeim tíma. Nú þegar niðurstaða liggur fyrir með afdráttarlausum hætti telur Seðlabankinn það eðlilegt að endurskoða strax allar sektarákvarðanir og sættir vegna brota á fjármagnshöftum í gildistíð reglna nr. 1082/2008, 880/2009 og 370/2010 um gjaldeyrismál, þar til reglurnar voru lögfestar síðla árs 2011, og fara þess á leit að ríkissjóður endurgreiði sektir vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Hlutaðeigandi aðilar mega því eiga von á bréfi frá Seðlabankanum á næstunni þar að lútandi.