*

sunnudagur, 29. mars 2020
Innlent 29. janúar 2020 19:08

Seðlar ódýrari en kort erlendis

Ný gjaldeyrismiðlun í miðbænum hyggst bjóða samkeppnishæft verð við bankana sem og að hafa opið lengur.

Höskuldur Marselíusarson
Gígja Einars

Segja má að hjónin Bergsveinn Sampsted, fyrrverandi framkvæmdastjóri kortaútgáfu Valitor, og konan hans, Hrönn Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sýnar, séu komin yfir í seðlana með opnun gjaldeyrismiðlunarinnar FX Iceland á Hafnartorgi.

„Með minn bakgrunn í greiðslumiðlun og kortunum áttaði ég mig á því að hér á landi vantaði ákveðna þjónustu sem ferðamenn leita eftir, það er að geta skipt gjaldmiðlum auðveldlega og á hagstæðu gengi. Vissulega eru komnir hraðbankar, þó ekki sé hægt að leggja inn á þá, og mikil sjálfvirkni komin með korta- og greiðslulausnum ýmiss konar, en stór hluti ferðamanna kýs enn að vera með seðla í vasanum, enda vanur því að heiman.

Engar tölur eru til um seðlanotkun ferðamanna en líklegt er að kortanotkunin sé um 80% af því sem þeir eyða. Íslendingar þekkja það svo sem sjálfir þegar þeir ferðast erlendis að það er gott að vera með varasjóð af gjaldeyri í vasanum,“ segir Bergsveinn.

„Önnur ástæða, auk breyttra reglna með afnámi gjaldeyrishaftanna, er þróun miðbæjarins. Ferðamönnum hefur fjölgað, en bönkunum fækkað niður í einn, auk þess sem opnunartími banka hentar ferðamönnum ekkert mjög vel. Þeir loka klukkan fjögur á daginn, en við erum með opið til sjö á kvöldin, líka um helgar, svo við ættum að ná stærsta kúfinum af ferðamönnunum sem koma í bæinn.

Við viljum líka þjóna Íslendingum með því að bjóða gott gengi í samanburði við bankana. Við stillum þessu þannig upp til að ná góðri hringrás og getum selt gjaldmiðlana sem við fáum inn. Ef okkur tekst það á því verðbili sem við höfum sett upp getum við haldið áfram að vera með mjög sanngjörn verð, sem vonandi aftur ýtir á að fólk horfi betur í kostnaðinn.“

Bergsveinn segir að utan opnunartíma bankanna leggist á 300 króna gjald á hver viðskipti en að öðru leyti telur hann að FX Iceland sé vel samkeppnishæft við bankana sem séu með meiri yfirbyggingu.

„Við erum að notfæra okkur fjártæknina alveg út í ystu æsar, meðal annars með samstarfi við aðila sem við kaupum viðskiptakerfið af og hafa mikla reynslu í þessu víða um heim. Með lítilli umgjörð teljum við okkur því geta þrifist vel á því verðbili sem við bjóðum, og svo erum við í litlu 25 fermetra húsnæði hérna við Geirsgötuna,“ segir Bergsveinn.

„Við opnuðum í byrjun þarsíðustu viku og helgarnar hafa verið býsna sterkar, það var nánast fullt hjá okkur báða laugardagana og sunnudagana. Við sáum bæði mikið af ferðamönnum, til dæmis marga sem komu út úr Kolaportinu sem er hérna beint á móti, en einnig eitthvað af Íslendingum, enda mun ódýrara að taka með sér pening héðan heldur en nota hraðbanka úti.

Kortagengið sem Íslendingar fá erlendis hefur nefnilega verið að skríða framúr seðlagenginu hérna heima fyrir Visa og MasterCard korthafa, svo oft er dýrara að nota kort í útlöndum heldur en að kaupa seðla áður en lagt er í ferðalagið, sem er mögnuð staðreynd.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Bandarískur fjárfestir hefur höfðað mál gegn íslensku sprotafyrirtæki
 • Yfirferð á stöðu hótelgeirans
 • Atferli lögmanns sem bauð ferðamönnum sem lentu í hremmingum á Langjökli þjónustu sína vekur upp spurningar
 • Þrátt fyrir að Bretland yfirgefi ESB að forminu til um mánaðarmótin er enn bið eftir raunverulegri útgöngu
 • Breyting á lyfjalöggjöf gæti valdið hagsmunaárekstrum
 • Rætt er við Pétur Þór Halldórsson, forstjóra S4S, sem rekur m.a. Ellingsen og Steinar Waage
 • Úttekt á stærstu viðskiptavinum ríkisins
 • Ólöf Jónsdóttir, forstöðumaður fjártækni hjá Kviku, er í ítarlegu viðtali
 • Íslenskt hönnunarfyrirtæki herjar á erlenda markaði
 • Gylfi Magnússon, nýkjörinn deildarforseti Viðskiptafræðideildar HÍ, er tekinn tali
 • Huginn og Muninn og Týr eru á sínum stað, auk Óðins.