Seðlaveski hafa minnkað mikið að undanförnu. Fyrr á árum voru þetta stór veski þar sem hægt var að geyma skírteini, seðla og smápeninga en nú eru veskin í flestum tilvikum bara hulstur fyrir debet- og kreditkort. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir að tæknin sé að sjá til þess að í framtíðinni verði seðlaveski óþörf.

„Eins og kemur fram í nýlegri úttekt úttekt Seðlabankans þá er hagkvæmara að nota greiðslukort en peninga. Við erum að reka í dag eitt hagkvæmasta greiðsluþjónustukerfi sem völ er á í heiminum og fólki líkar það. Við erum núna að sigla inn í nýjan veruleika þar sem fólk mun í auknum mæli nota snjallsíma og spjaldtölvur til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Það er framtíðin í greiðslumiðlun. Það er styttra í þennan veruleika en fólk kannski almennt áttar sig á. Innan nokkurra mánaða förum við hjá Valitor af stað með tilraunverkefni þar sem um þúsund viðskiptavinum okkar verður boðið að taka þátt í því að nota snjallsíma í snertilausum viðskiptum. Það verður töluverður fjöldi af fyrirtækjum með í verkefninu. Þetta virkar þannig að í símanum verður rafrænt kort og kaupmenn verða með sérstakan posa sem taka við slíkum greiðslum. Þegar viðskiptavinurinn kemur að kassanum leggur hann símann við posann og færslan fer í gegn með svokallaðri NFC-tækni (e. near field communication). Ef upphæðin er undir 3.500 krónum fer færslan beint í gegn en ef hún er hærri þarf viðskiptavinurinn að stimpla inn pin-númerið sitt. Það er verið að keyra svona tilraunaverkefni víðsvegar í heiminum en ég held að mér sé óhætt að segja að við hér á Íslandi séum í fremstu röð með þessa nýju tækni sem mun í byrjun byggja á android-stýrikerfinu. Ef allt gengur vel í þessu tilraunaverkefni okkar þá sé ég fyrir mér að hægt verði að fara með þessa lausn á fullu út á markaðinn áður en langt um líður.“

Aðspurður hvenær hann telji að þessi tækni verði orðin almenn á Íslandi segir Viðar: „Ég held að ansi margt muni gerast á næstu tveimur til þremur arum – mjög margt. Í Bretlandi telja sérfræðingar að um fimmtíu prósent af öllum greiðslum þar í landi verði greidd með snjallsímum árið 2020. Ég get alveg séð þetta gerast hraðar hér á Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.