Horst Seehofer, formaður þýska stjórnmálaflokksins Kristilega félagssambandsins (Christian Social Union – CSU) og innanríkisráðherra, hefur hótað Angelu Merkel, kanslara þýskalands, stjórnarslitum ef hún samþykkir ekki breytingar á innflytjendastefnu ríkisstjórnarinnar.

Systurflokkarnir CDU og CSU sitja í ríkisstjórn með sósíaldemókrataflokknum SPD, sem mynduð var þann 13. mars á þessu ári eftir töluverða örðugleika. Þingkosningar fóru fram í september á síðasta ári.

Seehofer vill að flóttamönnum, sem hafa sótt um hæli annarsstaðar, sé meinuð innganga í landið á landamærum Bæjarlands, en CSU starfar aðeins í Bæjarlandi, og hefur verið ráðandi í stjórnmálum sambandsríkisins í um 50 ár. Merkel er hinsvegar staðráðin í því að Evrópusambandið verði að finna sameiginlega lausn á vandanum.

CDU samþykkti á sunnudagskvöld stuðningsyfirlýsingu við stefnu Merkel í innflytjendamálum, en í kjölfarið bárust fregnir af því að Seehofer hafi boðist til að segja af sér formennsku CSU og sem innanríkisráðherra. Hann tjáði leiðtogum CSU á fundi að viðræður við Merkel um innflytjendamál á laugardaginn hefðu engu skilað. Ekki virðist þó ríkja einhugur innan flokksins um afstöðu Seehofer, en margir háttsettir meðlimir flokksins reyndu að tala um fyrir honum, þeirra á meðal Alexander Dobrindt, þingflokksformaður flokksins, sem sagði þetta „ákvörðun sem hann gæti ekki samþykkt”.

Seehofer samþykkti snemma í morgun að láta reyna á lokaviðræður við Merkel síðdegis klukkan 5 að staðartíma, 3 að íslenskum tíma, í þágu þjóðarinnar og ríkisstjórnarsamstarfsins, en BBC telur ólíklegt að málamiðlun náist.