*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Erlent 2. júlí 2018 12:34

Seehofer hótar Merkel stjórnarslitum

Formaður systurflokks Kristilegra Demókrata vill harðari innflytjendastefnu og fundar með Merkel síðdegis.

Ritstjórn
Horst Seehofer, innanríkisráðherra þýskalands og formaður CSU.
epa

Horst Seehofer, formaður þýska stjórnmálaflokksins Kristilega félagssambandsins (Christian Social Union – CSU) og innanríkisráðherra, hefur hótað Angelu Merkel, kanslara þýskalands, stjórnarslitum ef hún samþykkir ekki breytingar á innflytjendastefnu ríkisstjórnarinnar.

Systurflokkarnir CDU og CSU sitja í ríkisstjórn með sósíaldemókrataflokknum SPD, sem mynduð var þann 13. mars á þessu ári eftir töluverða örðugleika. Þingkosningar fóru fram í september á síðasta ári.

Seehofer vill að flóttamönnum, sem hafa sótt um hæli annarsstaðar, sé meinuð innganga í landið á landamærum Bæjarlands, en CSU starfar aðeins í Bæjarlandi, og hefur verið ráðandi í stjórnmálum sambandsríkisins í um 50 ár. Merkel er hinsvegar staðráðin í því að Evrópusambandið verði að finna sameiginlega lausn á vandanum.

CDU samþykkti á sunnudagskvöld stuðningsyfirlýsingu við stefnu Merkel í innflytjendamálum, en í kjölfarið bárust fregnir af því að Seehofer hafi boðist til að segja af sér formennsku CSU og sem innanríkisráðherra. Hann tjáði leiðtogum CSU á fundi að viðræður við Merkel um innflytjendamál á laugardaginn hefðu engu skilað. Ekki virðist þó ríkja einhugur innan flokksins um afstöðu Seehofer, en margir háttsettir meðlimir flokksins reyndu að tala um fyrir honum, þeirra á meðal Alexander Dobrindt, þingflokksformaður flokksins, sem sagði þetta „ákvörðun sem hann gæti ekki samþykkt”.

Seehofer samþykkti snemma í morgun að láta reyna á lokaviðræður við Merkel síðdegis klukkan 5 að staðartíma, 3 að íslenskum tíma, í þágu þjóðarinnar og ríkisstjórnarsamstarfsins, en BBC telur ólíklegt að málamiðlun náist.

 

 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is