Isavia kynnti rétt í þessu val á rekstraraðilum á fríhafnarsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Meðal nýrra aðila á fríhafnarsvæðinu verður ítalska kaffihúsakeðjan Segafredo og veitingastaðurinn Joe and the juice. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Isavia hélt í dag.

Fram kom einnig að veitingastaðurinn Nord, sem er nú þegar á fríhafnarsvæðinu, mun stofna með Lagardére Services sér íslenskt fyrirtæki fyrir flugvöllinn. Í sameiningu munu þau reka sérstakt veitingahús undir nafni Nord og veitingaþjónustu í sjálfsafgreiðslu. Þar að auki verður sérstakur íslenskur bar á svæðinu sem mun leggja áherslu á íslenskar drykkjarvörur.

Minni breytingar verða á verslunarrekstri í flugstöðinni en verslanir 66 gráður norður, Bláa lónsins, Elko, Eymundsson, Optical Studio og Rammagerðarinnar munu halda áfram rekstri í fríhöfninni.

Stefnt er á að framkvæmdir hefjist í nóvember til að breyta svæðinu og að þeim verði lokið næsta vor.