Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir oft gæta misskilnings í umræðu um 3,5% árlega raunávöxtun lífeyrissjóða.

„Oft er þessi tala misskilin. Margir telja þetta vera lögbundna ávöxtun sem sjóðirnir þurfi að ná. Þetta er viðmið sem er notað til að verðmeta eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum. Það er líka notað til að búa til réttindatöflu, sem segir til um hvernig við deilum út réttindum fyrir greidd iðgjöld. Nú þegar vextir eru lágir telja margir að þessi ávöxtun sé óraunhæf. Tölur af alþjóðlegum verðbréfamörkuðum benda til að viðmiðin sem eru eins og hér séu raunhæf, ef það næst að fjárfesta í bæði hlutabréfum og skuldabréfum. Áhættudreifing þarf þá að vera góð, hlutabréfamarkaður með 20 eða 40 félögum er ekki nóg," segir hann.

Ávöxtunarkrafan er eitt þeirra málefna sem rædd hafa verið á vettvangi lífeyrissjóðanna og einnig meðal aðila vinnumarkaðarins, segir Gunnar.

Er þetta rétt ávöxtunarkrafa að þínu mati og er hún nauðsynleg?

„Það er nauðsynlegt að hafa viðmið, til að geta gert réttindatöflur og meta eignir og skuldbindingar. Viðmiðið er til langs tíma, það verða alltaf tímabil þar sem við verðum yfir því og önnur þar sem ávöxtun er lægri. Frá 1980, yfir 30 ára tímabil, hafa lífeyrissjóðir í heild skilað um 4,4% raunávöxtun á ári. Undanfarin ár hefur það ekki náðst og má sem dæmi nefna að ávöxtun síðustu 10 ára hefur verið 3,2%. Ef við horfum á langtímaávöxtun á vestrænum mörkuðum yfir 112 ár, frá aldamótum 1900, þá hefur blandað eignasafn með 50% hlutabréfum og 50% skuldabréfum skilað 3,4% ávöxtun," segir Gunnar. Hann segir það jákvætt að 3,5% ávöxtunarkafan sé rædd, enda hafi hún talsverð áhrif. Mikilvægt sé að umræðan fari fram á faglegan hátt.

Taka þarf á vandanum

Aðspurður um mikinn halla á opinbera kerfinu segir Gunnar að ríki og sveitarfélög verði fyrr en seinna að taka á þeim vanda. Þetta á sérstaklega við um þann hluta sem varð til áður en opinbera lífeyriskerfið varð sjóðsöfnunarkerfi, það er B-deildir lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. "Það er halli á þeim hluta. Kerfið var gegnumstreymiskerfi vegna þess að gefin voru loforð fyrir ákveðnum réttindum á sama tíma og ekki var lagt fyrir til að mæta þeim skuldbindingum."

Hver er ykkar afstaða hjá landssamtökunum fyrir jöfnun lífeyrisréttinda?

"Það er kjarasamningsmál og ekki mitt að svara því. Opinberir starfsmenn njóta betri lífeyrisréttinda, en á móti hefur það væntanlega áhrif á kaup og kjör þeirra," segir Gunnar.

Ítarlegt viðtal við Gunnar er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær, fimmtudag. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentuðu útgáfu blaðsins og er því birtur í heild sinni á vb.is. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .