Að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, er vonast til að upp úr miðjum febrúar verði starf skilanefndar Glitnis komið í skaplegra horf. Margra ára starf geti þó verið framundan.

Þetta kemur fram í viðtali við Árna í Viðskiptablaðinu í dag.

Árni sagðist hins vegar sjá fyrir sér að skilanefndirnar gætu allt eins verið að störfum um langa hríð. "Það er hugsanlegt að menn verði að störfum hér í nokkkur misseri, jafnvel einhver ár ef því er að skipta. Það er þó ekki þar með sagt að skilanefndirnar verði við stjórnvölinn allan þann tíma, það er nokkuð sem aðrir verða að ákveða."

Hjá skilanefnd Glitnis starfa um 20 manns og félagið er rekið með skuldir upp á 2.000-3.000 milljarða króna og bókfærðar eignir af svipaðri stærðargráðu.

„Þegar þetta er dreift út um allan heim og í allskonar formi þá er augljóslega gríðarleg vinna að halda utan um þetta. Við njótum góðs stuðnings frá Nýja Glitni en við höfum einnig í vaxandi mæli verið að ráða okkar eigin lánastjóra og aðstoðarfólk til að halda utan um þetta og varðveita eignir."

Með Árna í skilanefnd Glitnis starfa Heimir Haraldsson, löggiltur endurskoðandi, Kristján Óskarsson, MBA fyrrverandi starfsmaður Glitnis, Erla Árnadóttir hrl. og Þórdís Bjarnadóttir hdl. Umsjónarmaður í greiðslustöðvun er Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .