Ágúst Arnar Ágústsson, sem nýverið var skráður forstöðumaður trúfélags Zúista, segist ætla að endurgreiða trúargjöld félagsmanna eftir að umsýslugjöld hafi verið dregin frá. Félagið vinni nú að að heimasíðunni zuism.is þar sem að hægt verður að sækja um endurgreiðslu í samvinnu við endurskoðendur og ráðgjafa.

Áralangar deilur hafa verið um stjórn félagsins. Ágúst segir í tilkynningu að aðilar sem gefið hafi sig út fyrir að stýra trúfélaginu og boðið upp á umræddar endurgreiðslur hafi verið honum ótengdir og hafi aldrei haft umboð til að starfa í nafni Zúista.

Einnig verði hægt að óska eftir að greiða félagsgjöldin til góðgerðarmála. „Félagið hefur t.d. nú þegar sett sig í samband við Barnaspítala Hringsins og hefur fengið lista af tækjum sem vantar á spítalann og hyggst félagið styrkja það málefni ef safnast nægt fé,“ segir í tilkynningu.

Fjársýsla ríksisins hefur greitt trúfélagi Zúista rúmar 53 milljónir króna líkt sem haldið hefur verið eftir af sóknargjöldum frá því í febrúar í fyrra vegna deilna um hver færi með stjórn félagsins að því er fram kom í Fréttablaðinu .

Ágúst ásamt bróður sínum stóðu fyrir fjölda fjáraflanna á vefsíðunni Kickstarter.com. Bróðir hans, Einar Ágústsson, var í desember 2013 skráður sem forvígismaður félagsins í fyrirtækjaskrá eftir að upphaflegur formaður hætti að því er segir í Fréttablaðinu. Einar var í júní síðastliðnum dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Báðir bræðurnir voru til rannsóknar í málinu en aðeins gefin út ákæra á hendur Einari.