Óhjákvæmilegt er að fresta aðalmeðferð í Al Thani-málinu sem á að hefjast í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Þetta er mat Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt. Eins og áður hefur komið fram hafa lögmennirnir Ragnar H. Hall og Gestur Jónsson, verjendur þeirra Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og fjárfestisins Ólafs Ólafssonar ákveðið að segja sig frá málinu. Dómari hefur hins vegar synjað þeim um slíkt. Þeir Ragnar og Gestur ætla hins vegar ekki að mæta í dómsal á morgun og hefur dómari ekki skipað þeim Sigurði og Ólafi nýja verjendur.

Jón sagði í samtali við fréttastofu RÚV sakborninga eiga rétt á því að þeim sé skipaður verjandi.

„Ef að verjendurnir mæta ekki þá verður dómarinn auðvitað að skipa þeim verjendur. Það eina sem ekki kemur til greina er að málið verði rekið áfram án verjenda sakborninganna. Það skiptir ekki máli að mínu mati hvort verjendurnir hafi mátt segja sig frá málinu eða ekki. Það eina sem ekki gengur er að sakborningarnir njóta ekki málsvarnar í dóminum.“

Þá lagði Jón Steinar áherslu á að vanda til verka við málsmeðferðina.

„Þegar menn eru dregnir til refsiábyrgðar fyrir ætluð brot [...] þá er mjög þýðingarmikið að það sé vandlega svo um hnútana búið að þeir fái að verja sig, fái að njóta alls þess réttar sem kveðið er á um að þeir eigi að njóta til að verja sig fyrir dómi. Ef þeir fá ekki allan þann kost sem þeir eiga rétt á þá verður dómur yfir þeim harla holur að innan.“