Michael Flynn, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu bandaríska hersins, segir að Hillary Clinton eigi að stíga til hliðar og taka ekki þátt í kosningabaráttunni á meðan FBI rannsakar notkun hennar á einkapósthólfi í opinberum erindagjörðum. CNN greinir frá.

„Ef þetta hefði verið ég hefði ég verið rekinn og væri líklega í fangelsi,“ segir Flynn. Hann sagði mistök Clinton sýna ábyrgðarleysi af hálfu manneskju sem hefði átt að sýna miklu meiri ábyrgð sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Brian Fallton, talsmaður kosningabaráttu Clinton, sagði að orð Flynn væru kjánaleg og benti á sambærilegar rannsóknir á Colin Powell og Condoleezza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherrum Bandaríkjanna.