Vogunarsjóðir sem eiga kröfur á föllnu íslensku bankanna gætu fljótlega fengið kröfur sínar greiddar. Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við Bloomberg í dag.

Steinunn segir að hingað til hafi íslensk stjórnvöld ekki verið tilbúin að stíga næstu skref í ferlinu og ganga frá samningum við kröfuhafa, en viðræður við framkvæmdastjórn um afnám hafta gefi tilefni til að ætla að það sé að breytast.

Steinunn bendir á að slitastjórnin hafi óskað eftir undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að ljúka nauðasamningum. Hún segir slitastjórnina enn bíða svara frá Seðlabankanum. Nú þegar nefnd hafi verið skipuð um afnám hafta og ferlið formlega sett af stað séu þó teikn á lofti um að hlutirnir séu á réttri leið.