Þau gögn sem Creditinfo safnar geta gefið mjög áhugaverðar vísbendingar um heilsu atvinnulífsins og efnahagslegt ástand þjóðarinnar. Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri Creditinfo, segir í samtali við Morgunblaðið gögnin benda til þess að enn sé að hægjast á efnahagsmálunum.

„Nær allir lánveitendur leita í gagnagrunna okkar að upplýsingum um hvort einstaklingar eða fyrirtæki eiga í greiðsluvandræðum og sér í lagi þegar verið er að undirbúa veitingu láns, þ.m.t. reikningsviðskipti,“ segir hann.

„Töluverður samdráttur hefur orðið á fyrirspurnum í gagnagrunninn á milli áranna 2011 og 2012, sem segir okkur að dregið hefur úr lántökum einstaklinga og fyrirtækja. Það segir okkur svo aftur að lítið er um fjárfestingu og að aðilar halda að sér höndum.“