Norski fjárfestirinn Jan Haudemann-Andersen telur að heimsmarkaðsverð á olíu muni haldast lágt næstu tíu árin að minnsta kosti. Þetta segir hann í samtali við Dagens Næringsliv .

Skiptar skoðanir eru um hvert framhaldið verður á olíumarkaði, en hagfræðiprófessorinn Jeffrey D. Sachs sagði í viðtali við sama miðil í gær að olíutunnan muni fara yfir 100 Bandaríkjadali innan þriggja ára.

Haudemann-Andersen er hins vegar ekki bjartsýnn á stöðu mála og telur að verð á olíutunnu muni haldast í kringum 50 dali næstu tíu ár.

Því til stuðnings bendir hann á verðhrunið sem átti sér stað á olíumarkaði á níunda áratugnum. Þannig hækkaði verð á olíu frá 1975 til 1986 um 600% þar til það helmingaðist á mjög skömmum tíma. Hélst verðið þá í kringum 20 dali á tunnu næstu 15 árin áður en það tók að hækka á ný.