Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segir að veiðigjöld hafi verið lögð á á grundvelli reglna sem séu ógagnsæjar og óraunhæfar  og mundu ekki halda væri látið á þær reyna fyrir dómstólum. Þetta sagði Adolf í setningaræðu sinni á aðalfundi LÍÚ í dag.

„Veiðigjöldin hafa þegar skaðað atvinnugreinina, en þær hugmyndir um veiðigjöld sem uppi voru síðastliðinn  vetur hefðu sem meira er sennilega riðið að fullu mörgum útgerðarfélögum hefðu þær orðið að lögum og þeim hrint í framkvæmd.  Þessi staða skapar slíka óvissu í rekstri útgerðarinnar að farið er að hamla verulega þróun greinarinnar og fjárfestingu í henni,“ segir Adolf.

Þá vék Adolf máli sínu að kjarasamningum við sjómenn sem hafa verið lausir í tæp þrjú ár. „Það kerfi sem kjarasamningarnir byggja á  að útgerðarmenn og sjómenn deili kjörum í gegnum hlutaskipti. Með þessu eru  hagsmunir  útvegsmanna og sjómanna tengdir saman hvað varðar afkomu af veiðum einstakra skipa. Eins og málin standa má að meðaltali gera ráð fyrir að sjómenn fái í kringum 40% af aflaverðmæti. Ljóst má vera að taka verður tillit til þess aukna kostnaðar sem stóraukið veiðigjald og sí hækkandi olíukostnaður hefur falið í sér og lent allur á útgerðarhliðina við hlutaskiptin. . Þangað til að þessi mál  verða útkljáð verða  kjaramál sjómanna  í óvissu. Sú hugsun að hagsmnir útvegsmanna og sjómanna haldist í hendur hefur að miklu leyti tapast og það þarf að leiðrétta,“ sagði hann.

Adolf sagði mikilvægt að útgerðarmenn og sjómenn væru samtaka í að skapa aftur þann frið um sjávarútveginn svo að hann gæti áfram verið sú undirstaða undir velferð í landinu sem hann hafi verið hingað til.