Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG hafi veitt ríkasta fólki í heimi sérstakan skattaafslátt þegar þrotabú í slitameðferð voru undanþegin bankaskatti. Afslátturinn hafi numið 44 milljörðum króna.

Áætlað er að slíkur skattur á þrotabúin muni skila ellefu milljarða skatttekjum á næsta ári. „Þau tóku ríkasta fólkið í heiminum og veittu því sérstakan afslátt,“ sagði Guðlaugur í umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, var til andsvara. „Ef að það sem þingmaður spyr um er undanþága sem var gerð fyrir þrotabúin á árinu 2010 þegar bankaskattur var lagður á þá var ástæðan fyrst og fremst sú að upplýsingar um stöðu búanna voru ekki nógu góðar á þeim tíma. Það var ekki vitað hver skuldaði hverjum,“ segir Oddný.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafi hins vegar talað fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að slíkur skattur yrði lagður á fjármálastofnanir í slitameðferð.