Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi, segir samningaferli við lífeyrissjóðina um kaup á stórum hlut í félaginu enn í farvegi, en haldnir voru kynningarfundir fyrir sjóðina fyrir um mánuði síðan.

„Svo kom bara aðventan og nú eru allir komnir á kaf í jólaundirbúning,“ segir hann léttur. Ekkert liggur enn fyrir um stærð eignarhlutarins ef af sölunni verður annað en að um „umtalsverðan hlut“ verði að ræða, en óháð því er hugsunin að Heimstaden sjái um reksturinn, sem Gauti segir fyrirkomulag sem myndi henta báðum aðilum vel.

„Ég held að hagsmunir okkar og sjóðanna fari algerlega saman hvað það varðar. Þeir hafa engan áhuga á því að standa í rekstri leigufélags, en það er einmitt það sem við viljum gera fyrst og fremst. Markmiðið hjá okkur er að fá inn í eigendahópinn stofnanafjárfesta sem eru til í að vera í þessu með okkur til lengri tíma.“

Gauti segir tímasetningu viðræðanna ekki tengjast versnandi rekstrartölum móðurfélagsins nýverið.

„Þetta eru að verða komin tvö ár sem Heimstaden AB hefur rekið þetta eitt síns liðs, en það stóð aldrei til til lengdar,“ segir hann og útskýrir að Ísland sé eina landið þar sem ekki séu meðeigendur að rekstrinum.

„Það var því hugsunin frá upphafi að athuga hvort hægt væri að finna áhugasama aðila hér á landi fyrir slíku.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.