Að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, upplýsingafulltrúa Rio Tinto Alcan á Íslandi, er ekkert hæft í þeirri frétt Fréttablaðsins að hætt hafi verið við stækkun álversins í Straumsvík. Frétt um það var á forsíðu blaðsins í dag.

,,Það hefur ekkert breyst og þetta verkefni er á sama stað í dag og það var í gær. Ákvörðun um næstu skref í því verður tekin á næstu vikum. Þetta er þýðingamikið verkefni sem er mikill vilji til að nái fram að ganga. Fréttin er því uppspuni og eina fréttin er að hún skuli hafa birst. Báðir aðilar að þessu tveggja manna tali sem þar er vitnað til, Össur og Jacynthe Côté, hafa staðfest að þetta hafi ekki farið þeim á milli. Ég botna því ekki í því hvernig þetta ratar sem aðalfrétt á forsíðu Fréttablaðsins," sagði Ólafur Teitur.