Björgólfur Jóhannsson fyrrverandi forstjóri Icelandair Group segir að honum sýnist sem nokkuð langt síðan sé að Wow air hætti að vera rekstrarhæft, sem sé eitt af skilyrðunum sem Samgöngustofa eigi að fylgjast með að flugfélög standist.

Þetta kom fram í spjalli við hann í Bítinu á Bylgjunni í morgun, en þar sagði hann jafnframt að það kæmi sér á óvart hve mikill taprekstur Wow air hefði verið, en eins og sagt var frá í fréttum í gær tapaði félagið yfir 20 milljörðum króna í fyrra.

Segir Björgólfur að það þýði að tapið hafi verið um 6.300 krónur á hvern farþega, miðað við 3,5 milljónir farþega. „Ég velti fyrir mér hlutverki eftirlitsaðila til dæmis eins og Samgöngustofu, svo maður tali nú ekki um stöðuna sem virðist vera inni hjá Isavia um hvað þeir hafa liðkað til fyrir Wow air,“ sagði Björgólfur og vísaði í það þegar ný vél flugfélagsins Ernis var kyrrsett fyrr í vetur.

„Það var nú frétt einhvern tíman í vetur að þeir stoppuðu vél á Reykjavíkurflugvelli, litlu félagi, ég veit ekki hvort það velti 2 milljörðum eða hvað, og skuldi þar einhvers staðar innan við 100 milljónir, og síðan heyrir maður af þessari skuldastöðu við Isavia sem mér finnst alvarlegt mál.“

Áréttar Björgólfur að Samgöngustofa hafi það hlutverk að fylgjast með, gefa út flugrekstrarleyfi og við þá útgáfu þurfi að uppfylla skilyrði og að stofnunin eigi að fylgja eftir að þau séu uppfyllt. Segir hann stofnunina eiga að grípa inn í svona málum, annað hvort með því að svipta félagið flugrekstrarleyfi, eða gefa svigrúm til að vinna í sínum málum.

Nefndi hann sem dæmi að það hefðu verið flugmálayfirvöld í Bretlandi sem hefðu stöðvað flugfélagið Monarck því þeir sáu ekki við eftirlit að félagið hefði fé til að standa undir skuldbindingum til framtíðar. „Mér finnst þetta vera [...] spurning um vinnubrögð hjá Samgöngustofu, og eftirlitsaðilum og hvort við höfum brugðist þarna.“

Helmingsfækkun flugflota Wow þegar haft áhrif

Þó hann segi að áhrifin af mögulegu falli Wow air verði mikil sé mikið af því þegar búið að koma fram. Þeir séu búnir að fækka vélum, fyrst í 11 og svo niður í 9 í gær.

„Við megum ekki vera í því að mála það svarta mynd fyrir fólkið hérna í landinu að það sé bara allt ómögulegt og allt djöfullegt, við eigum alltaf tækifæri til að vinna okkur upp og gera betur, við eigum mörg dæmi um það, hrunið 2008, hvernig fórum við að því, við fórum bara í sóknargír og við gerum það bara núna.“

Segir Björgólfur að búið sé að mála of svart þá mynd af áhrifum á samfélagið ef Wow air falli, því félagið sé nú þegar búið að minnka um helming, og velti hann m.a. fyrir sér hvort gert væri ráð fyrir 30, 25 eða færri vélum til dæmis í fjármálaáætlun fjármálaráðherra.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gerir fjármálaáætlun næstu fjögur árin ráð fyrir sterkri efnahagslegri stöðu þjóðarbúsins áfram.