Guðmundur Ragnarsson, formaður félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að öll fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins eigi að fara eftir þeirri stefnu sem samtökin hafa sett nafn sitt undir. Hann gagnrýnir harðlega þá afstöðu Rio Tinto að frysta laun starfsmanna fyrirtækisins og segir að ef SA geri sér ekki grein fyrir stöðunni muni SALEK-samkomulagið ekki verða að veruleika. Þetta kemur fram í pistli sem hann hefur skrifað á vefsíðu VM .

„Ætli alþjóðlegur auðhringur að starfa á Íslandi þá verður hann að átta sig á því að hann verður að starfa eftir þeim leikreglum sem hér eru, en ekki samkvæmt eigin einræðistilburðum,“ segir Guðmundur og vísar þar í þá ákvörðun Rio Tinto að laun starfsmanna fyrirtækisins á heimsvísu yrðu fryst á þessu ári. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur áður fordæmt þessa afstöðu Rio Tinto í samtali við Viðskiptablaðið og sagt fullyrðingar fyrirtækisins stangast á við íslenska vinnulöggjöf.

Guðmundur segir í pistli sínum:

„Við sem samfélag verðum að standa í fæturna og hafna að ofsagróði auðhringanna eigi að ganga fyrir. Svona fyrirtæki verður að sýna samfélagslega ábyrgð vilji það starfa hér og borga góð laun. Það hefur margoft verið farið yfir það í fjölmiðlum hvernig linkind og kjarkleysi íslenskra alþingismanna hefur skapað þessum fyrirtækjum leiðir til að þurfa ekki að greiða eðlilega skatta og gjöld af hagnaði sínum hér og tryggt þeim hagstætt orkuverð. Ef á að keyra launin niður líka, þá er  lítill ávinningur eftir fyrir okkur sem samfélag, að hafa svona fyrirtæki hér á landi. Við verðum að kalla eftir samfélagslegri ábyrgð og hugsun frá þessum alþjóðaauðhringi.“

„Við munum standa af okkur lokun verksmiðjunnar, velji auðhringurinn að fara þá leið. Það kemur eitthvað annað í staðinn,“ segir Guðmundur. Hann skorar á allt íslenskt launafólk að sýna starfsmönnum ÍSAL stuðning sinn með öllum ráðum í baráttu þeirra við „alþjóðaauðhringinn“ Rio Tinto Alcan.

„Ef við náum ekki að stöðva aðförina að okkur í ISAL, munu önnur fyrirtæki fara sömu leið. Þá munum við verða ódýrt vinnuafl í augum auðhringa og erlendra fyrirtækja til að skaffa þeim meiri gróða í framtíðinni. Er það framtíðarsýn sem við viljum fyrir íslenskt samfélag?“ spyr Guðmundur.