Farið er að halla undan fæti hjá tæknifyrirtækinu Apple. Það er einfaldlega ekki jafn nýjungagjarnt og áður. Þetta fullyrðir Thorsten Heins, forstjóri farsímafyrirtækisins Blackberry. Bandaríska tímaritið Forbes segir á vef sínum ummæli forstjórans skiljanleg í ljósi þess í hann er þessa dagana að kynna nýjasta snjallsímann undir merkjum Blackberry. Fyrirtækið hefur átt fremur dapra daga síðustu misserin og stefnir á að endurheimta eitthvað af fornri frægð með nýjum símum.

Blaðið bendir jafnframt á að ummæli Heins féllu eftir að Phil Schiller, markaðsstjóri Apple, gagnrýndi nýjasta farsímann frá Samsung, Samsung Galaxy 4, sem kynntur var í síðustu viku. Heins sagði m.a. í samtali við ástralska dagblaðið The Australian Financial Review að Apple hafi rutt brautina með nýjum snjallsímum á sínum tíma. Fyrirtækið leiði hins vegar ekki lestina lengur heldur Samsung, HTC og Blacberry.