Verði af sameiningu fasteignafélaganna Eikar og Landfesta gæti eignahlutur Arion banka verið rúm 40%, að sögn Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar, framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Arion banka. Eins og VB.is sagði frá í gær hefur Arion banki farið þess á leit við stjórn Eikar fasteignafélags að fram fari könnunarviðræður við Landfestar um samruna. Markmið viðræðnanna er að leggja mat á kosti og galla sameiningar Landfesta og Eikar auk þeirra fasteigna sem Eik fasteignafélag fyrirhugar að kaupa af félaginu SMI ehf. Ekki liggur fyrir hver skiptahlutföll verða ef af sameiningu verður.

Óbreytt tilboð Regins

Fasteignafélagið Reginn lagði í byrjun mánaðar fram yfirtökutilboð fyrir hluthafa Eikar og er það í gildi fram á föstudag. Tilboðið hljóðar upp á rétt rúma átta milljarða króna. Fasteignir SMI eru undanskildar tilboði Regins. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði í samtali við VB.is í gær ekki ljóst nú hversu margir hluthafar Eikar hafi tekið tilboðinu. Tilboðið muni þrátt fyrir hugsanlegar samrunaviðræður Eikar og Landfesta standa óbreytt fram á föstudag.

Sakaði bankann um hagsmunavörslu

Helgi var gagnrýninn á Arion banka og taldi ljóst að bankinn verði meirihlutaeigandi í sameinuðu fasteignafélagi. Arion banki á 39% hlut í SMI og 100% hlut í Landfestum. Lífeyrissjóðir eru hins vegar helstu eigendur Eikar. Helgi taldi því ljóst að Arion banki sé með viðræðunum að verja hagsmuni sína í SMI í gegnum Landfestar.

Halldór segir mat Helga ekki rétt. Hann bendir á að eigendur SMI muni ekki eignast neitt í Eik heldur sé Eik að kaupa eignir út úr SMI ef af þeim viðskiptum verður. Bókfært virði eiginfjár Landfesta er metið á um átta milljarða króna en Eik á um sjö milljarða króna og sé virði eiginfjár SMI er um fimm milljarðar króna miðað við tilboð Eikar. Því megi gera ráð fyrir að eignarhlutur Arion banka verði rúm 40% eftir þessi viðskipti.