Síðustu daga hefur danska dagblaðið Børsen fjallað mikið um fasteignafélagið Keops, sem er 30% í eigu Baugs.

Børsen heldur því fram að Keops hafi í byrjun nóvember tilkynnt að Eric Rylberg yrði framkvæmdastjóri við hlið Karstens Poulsens, en í ársreikningum félagsins, sem birtust um miðjan desember, kom fram að Rylberg yrði ráðgjafi fyrirtækisins. Børsen heldur því fram að Keops muni fá áminningu frá dönsku kauphöllinni.

Í tilkynningu sem Keops sendi frá sér í gær kemur fram að kauphöllin í Kaupmannahöfn geri engar athugasemdir við upplýsingar frá fyrirtækinu um hlutverk Erics Rylberg innan veggja fyrirtækisins.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Norrænna fjárfestinga Baugs, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ásakanir blaðamanna Børsen síðustu daga væru furðulegar. ,,Það hefur alltaf legið fyrir hvert hlutverk Eric Rylberg yrði hjá Keops, hann sér um yfirtökur og að finna nýjar eignartökur á meðan Karsten Poulsen sér um daglegan rekstur fyrirtækisins,? sagði Skarphéðinn í samtali við Viðskiptablaðið.

Í gær var ráðstefna hjá Viðskipta- og hagfræðistofnun Háskóla Íslands, þar sem fjallað var um rannsóknir á útrás íslenskra fyrirtækja á árunum 1998 til ársins 2007. Þar kom fram að grundvallarveikleiki íslenskra fyrirtækja sem starfa erlendis virðist vera minni tjáskipti en almennt tíðkast erlendis, bæði við erlenda starfsmenn og fjölmiðla.

Þegar Skarphéðinn Berg var spurður um þetta atriði sagði hann að vissulega mætti bæta almannatengsl íslenskra fyrirtækja erlendis og þá sérstaklega í Danmörku. ,,Hins vegar virðast skrif Børsen síðustu daga byggð á óvönduðum vinnubrögðum blaðamanna þeirra,? sagði Skarphéðinn.