Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að í ljósi upplýsinga um lægri bótagreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé fullt tilefni til að lækka tryggingagjöld.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Þorsteinn að stjórnvöld hafi leikið þann leik að lækka launatryggingagjaldið, sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð en hækka á móti almenna tryggingagjaldið um 0,75%. Hann telur því að atvinnulífið eigi inni um 1,5% lækkun á almenna tryggingagjaldinu og vill að með bættri afkomu ríkissjóðs taki stjórnvöld hækkunina á almenna tryggingagjaldinu til baka.

Bjarni Bendiktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að stefnt verði að því að lækka tryggingagjaldið um fjóra milljarða á árunum 2014 til 2016. Hvort verði farið í enn frekari lækkanir vegna þess hversu mikið dró úr atvinnuleysisbótagreiðslum segir Bjarni að verði að koma í ljós.