Skafti Harðarson
Skafti Harðarson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Samtök skattgreiðenda segja að umsögn Félags atvinnurekenda um áfengislagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna taki aðeins mið af skammtímahagsmunum þröngs hóps innan félagsins sem flytja inn áfengi og líki vel náðarfaðmur ríkisins, eins og það er orðað á vefsíðu Samtaka skattgreiðenda. Í bréfi sem Skafti Harðarson, formaður Samtakanna, sendi formanni og framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda segir hann að leitt væri að sjá umsögnina. „Ef einhvers staðar væri von á stuðningi hefði þess verið vænst úr ranni þeirra sem helst hafa hag at atvinnufrelsi. En það er augljóst að hagsmunir þeirra sem hafa sérstakt skjól at ÁTVR hafa hér orðið ofaná,“ segir m.a. í bréfinu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær segir í umsögn Félags atvinnurekenda að nálgun frumvarpsins sé of þröng. Á því séu alvarlegir annmarkar sem hafi í för með sér að verði það samþykkt óbreytt muni það á sumum sviðum þýða afturför hvað varði aðgengi neytenda að áfengi. Telur félagið jafnframt að frumvarpið myndi hafa í för með sér afar íþyngjandi breytingar fyrir bæði framleiðendur og innflytjendur áfengis, sem á endanum myndu koma niður á samkeppni, fjölbreytni, vöruframboði og verði á áfengismarkaði. Leggur félagið því ekki til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Frjálsræði í viðskiptum með áfengi verði að haldast í hendur við endurskoðun á lögum um markaðssetningu á áfengum drykkjum.

Á vefsíðu Samtaka skattgreiðenda segir að dapurt sé að sjá atvinnurekendasamtök berjast gegn auknu atvinnufrelsi. „Hvernig á að taka mark á kröfum slíkra samtaka um frelsi á öðrum sviðum marktækar? Í þessu máli eiga hagsmunir almennings, neytenda, að ganga fyrir, og um leið hagsmunir atvinnurekenda – frelsi leiðir til jákvæðrar niðurstöðu til lengri tíma litið. Að einhverjir tilteknir framleiðendur eða innflytjendur muni þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum skiptir hér engu máli,“ segir í greininni.