Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, segir að tiltölulega einfalt sé að koma á fót sterku húsnæðisleigufélagi sem myndi leigja út til almennings leiguíbúðir af ýmsum stærðum og gerðum. Tilgangurinn yrði að bjóða upp á íbúðir til leigu á viðráðanlegu verði.

Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að opinberar aðilar þurfi að hafa frumkvæðið að því að lífeyrissjóðir leggi fram viljayfirlýsingu um lánsfé til sérstaks íbúðaleigufélags sem yrði í dreifðri eignaraðild hagmsmunaaðila, svo sem lífeyrissjóða, stéttarfélaga, sveitarfélaga og mögulega annarra aðila. Lán megi ekki bera hærri raunvexti en 3-3,2% og lánshlutfall um 85% af fjárfestingunni.

Helgi gerir ráð fyrir því að lánshlutfall verði hið minnsta 85% af fjárfestingunni. Lánið verði verðtryggt t.d. með jöfnum afborgunum til 40 ára með t.d. 2% þaki á verðtryggingu. Skuldari verði íbúðaleigufélagið og veðin verði í leigusamningum og fasteignum. Þannig yrði eignamyndun í félaginu nokkuð hröð. Þá leggur Helgi til að fyrrnefndir hagsmunaaðilar myndi með sér samtök sem standi að leigufélaginu. Samtökin leggi félaginu til loforð um eigið fé sem nemi minnst 15% af heildarfjárfestingum og vilyrði um rekstrarframlag fyrstu árin meðan tekjuflæði er að byggjast upp. Búseti, Félagsbústaðir eða Búmenn sjái síðan um daglegan rekstur félagsins. Svo verði eignir keyptar og þær leigðar út

„Ef það er vilji okkar að venjulegir Íslendingar geti búið í venjulegu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og án þess að eiga von á uppsagnarbréfi um næstu mánaðamót þá þurfum við að vinna í því. Ekki bara tala um það,“ segir Helgi í greininni.