Það er ofureinföldun að halda því fram að með auknu aðgengi neytenda að áfengi þá aukist neyslan sjálfkrafa, að mati Gylfa Ólafssonar, í samtali við Fréttablaðið í dag. Gylfi skrifaði meistararitgerð við Háskólann í Stokkhólmi, þar sem sýnt var fram á að drykkja unglinga er meiri í þeim bæjarfélögum þar sem áfengisverslun er ekki til staðar.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að frumvarp þess efnis að leyfa áfengissölu í verslunum verði lagt fram í haust. Margir hafa líst yfir andstöðu við hugmyndina og sagt að bætt aðgengi að áfengi muni auka áfengisneyslu.

Gylfi segir mikilvægt að skoða hvað gerist þegar sölumynstri áfengis er breytt. Hann segir aldur fólks, búsetu og fleiri þætti geta haft áhrif hvað það varðar. Þetta sé eitthvað sem þurfi að kafa ofan í en ekki sé hægt að gefa sér að áfengisneysla aukist samhliða auknu aðgengi að áfengi.