„Þær bætur sem kaþólska kirkjan samþykkti að greiða út til þeirra sem urðu fyrir ofbeldi eru skammarlega lágar. Bæturnar eru of lágar til að hægt sé að kalla þær sanngirnisbætur,“ segir Illugi Gunnarssonar menntamálaráðherra um þær bætur sem kaþólska kirkjan hefur samþykkt að greiða þeim sem segjast hafa á barnsaldri orðið fyrir ofbeldi af hendi starfsmanna Landakotsskóla. Hann vill að kirkjan endurskoði málið.

Börn beitt ofbeldi

Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar vegna frétta af brotum á börnum í Landakotsskóla þegar þar réðu ríkjum þau sér Georg og Margrét Muller um áratugaskeið. Af þeim 85 sem ræddu við nefndina sögðust átta hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en 27 fyrir andlegu ofbeldi. Eftir að nefndin lauk störfum í nóvember í fyrra gátu þeir sem töldu á sér brotið eða orðið fyrir misnotkun starfsmanna þar sótt um sanngirnisbætur. Kaþólska kirkjan hefur vísað bótaskyldu á bug en sæst á að greiða sanngirnis bætur.

Morgunblaðið sagði frá því í nóvember að maður sem brotið var kynferðislega á í þrjú ár hafi fengið um hálfa milljón króna í bætur. Maðurinn var m.a. látinn sofa nakinn í rúmi með séra Georg og neyddur til að veita Margréti Müller munnmök.

„Mér finnst bragur í því ef kaþólska kirkjan endurskoðaði málið og kæmi til móts við þessa einstaklinga með sanngjarnari hætti,“ sagði Illugi.

Það var Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, sem vakti máls á sanngirnisbótunum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag en hann sagði bæturnar eiga lítið skylt við sanngirni.