Breska verkalýðsfélagið GMB íhugar nú aðgerðir gegn íslenska matvælafyrirtækinu Bakkavör, en fjölmiðlatengill GMB sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann teldi fyrirtækið brjóta á rétti hluta starfsmanna sinna.

Fjölmiðlatengillinn vísaði til umfjöllunar í BBC síðastliðinn sunnudag, þar sem gefið er til kynna að einstaka verksmiðjur Bakkavarar fylli ekki hreinlætiskröfur og að fyllsta öryggis sé ekki gætt.

Bakkavör hefur birt tilkynningu á ensku á vef sínum og segir umfjöllun BBC misvísandi og ónákvæma.

Fram kemur í bréfasamskiptum á milli Bakkavarar og GMB, sem Viðskiptablaðið hefur fengið aðgang að, að verkalýðsfélagið hafi reynt að sannfæra starfsfólk í verksmiðju fyrirtækisins í norður London um að ganga í GMB.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja almennt starfsfólk í verksmiðjunni í norður London fá 5,35 pund á tímann, en til samanburðar fá starfsmenn í öðrum verksmiðjum fyrirtækisins 6,2 pund á tímann.

Starfsfólk í verksmiðjunni í norður London, sem var hluti af kaupum félagsins á Katsouris Fresh Foods, eru að miklu leyti farandverkamenn frá Asíu, samkvæmt upplýsingum frá GMB.

Fjölmiðlatengill GMB tók fram að Bakkavör væri ekki að brjóta lög með mismunandi launagreiðslum til starfsmanna.

Ekki náðist í stjórnendur Bakkavarar og verður sjónarmiðum fyrirtækisins komið á framfæri síðar. Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á föstudaginn.