Breskir bankar og lánastofnanir þurfa að auka eigið fé sitt um 25 milljarða punda, jafnvirði 4.700 milljarða íslenskra króna, til að vega upp á móti væntum afskriftum og sektargreiðslum, samkvæmt niðurstöðum stöðugleikamats Englandsbanka sem birtar voru í dag.

Matið var gefið út í kjölfar könnunar breska fjármálaeftirlitsins á stöðu bankanna m.a. í skugga verðlækkunar á fasteignamarkaði og vanskila á lánum á næstu þremur árum. Bloomberg-fréttaveitan segir Englandsbanka hvorki tilgreina hvaða bankar séu í þessari stöðu né hversu margir af breskum bönkum þurfi að auka eigið féð.

Bloomberg rifjar upp að seðlabankastjórinn Mervyn King hafi í nóvember í fyrra sagt bankana þurfa að vera betur búna undir hugsanleg áföll en þeir voru áður en fjárkreppan skall á haustið 2008. Síðan þá hafa nokkrir bankar í Bretlandi gripið til ýmissa ráða til að bæta stöðu sína, svo sem með sölu eigna. Þar á meðal eru Lloyds og Royal Bank of Scotland.