Í síðasta blaði Viðskiptablaðsins var rætt við Theódóru Þorsteinsdóttir en hún segir að gengið hafi verið hart fram gegn fyrirtæki hennar, en hún var með gengislán sem hafði verið dæmt ólöglegt.

Félag atvinnurekenda gerði nýlega könnun þar sem kom fram að enn átti eftir að leysa úr ágreiningi margra fyrirtækja við fjármálastofnanir, en 58% fyrirtækja sem svöruðu sögðu að ekki hafi verið leyst að fullu úr ágreiningnum.

„Þetta er nú enn eitt dæmið um það sem við höfum verið að benda á að okkur finnst bankarnir hafa gengið of hart fram í mörgum tilvikum í þessum gengislánamálum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda um mál Theódóru.

„Þeir hafa látið dómstólana um að úthluta þeim afslætti af þessum málum í staðinn fyrir að semja við sína viðskiptavini á viðskiptalegum grundvelli og út frá gagnkvæmum hagsmunum. Að fyrirtækin lifi, fái að dafna, vaxa og fjárfesta og þar af leiðandi að skapist langtíma viðskiptasamband fyrirtækis og bankans sem báðir hagnast á.“ Ólafur segir að þeir telji að bankarnir hafi túlkað dómafordæmin allt of þröngt. „Það eru fallnir mörg hundruð dómar og það er ennþá mjög hátt hlutfall þessara mála í ágreiningi.“