„Meginreglan er sú að konum í þessari stöðu er ekki sagt upp,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja (SSF) um það að markaðsstjóra MP banka var sagt upp í fyrrahaust. Hún var á þeim tíma komin rúma sex mánuði á leið. Hann segir þetta fyrsta málið sem komi inn á borð SSF þar sem barnshafandi konu er sagt upp án þess að henni eru bættir upp þeir þrír mánuðir sem vantar upp á fæðingu.

Markaðsstjóranum var sagt upp ásamt átta öðrum starfsmönnum síðla í október í fyrra. Uppsögnin var liður í umfangsmiklum skipulagsbreytingum hjá MP banka. Markaðsstjórinn fyrrverandi telur á sér brotið og höfðaði skaðabótamál gegn bankanum.

Bankarnir pössuðu konurnar

Friðbert bendir á að hann hafi unnið í kringum SSF í um 30 ár og á þeim tíma hafi bankarnir alltaf staðið vörð um barnshafandi konur. Staða viðkomandi fyrirtækis hafi engu skipt. „Jafnvel í uppsögnunum stóru árið 2008 þá var öllum konum í þessari stöðu hlíft."

Friðbert segir orðið mjög erfitt fyrir konur á almennum vinnumarkaði að koma til baka í vinnu eftir fæðingarorlof og óska þá eftir minna starfshlutfalli til að byrja með svo þær geti sinnt barni sínu. Því sé almennt hafnað og þurfi því að endurskoða ákvæði í lögum um fæðingarorlof sem eigi að tryggja starfsmanni sama starfið eða sambærilegt ef sama starf er ekki fyrir hendi. „Lög um fæðingarorlof eru afar óskýr og ófullkomin. Á Íslandi er alltaf hægt að segja að hitt og þetta hafi þurft að gera vegna hagræðingar. Á Norðurlöndunum er vinnulöggjöfin þannig að ef fólki er sagt upp vegna hagræðingar þá hvílir sú kvöð á fyrirtækjum að greina frá því hvort uppsögnin hafi skilað hagræðingu. En hér eru engar kvaðir á á almennum vinnumarkaði,“ segir hann.

Lögmaður MP banka sagði í samtali Viðskiptablaðsins sem kom út í gær ekki telja að uppsögnin hafi verið í andstöðu við lög um fæðingarorlof né jafnréttislög enda hafi starfsmanna- og markaðsmál með sanni verið sameinuð. Bæði málin eru á hendi Hildar Þórisdóttur, forstöðumanns mannauðssviðs MP banka.

Fjallað er um málið í Viðskipablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .