Enn er mikil óvissa í bankakerfinu bæði hér á landi og í Evrópu. Af þeim sökum er nauðsynlegt fyrir íslensku bankana að viðhalda háu eiginfjárhlutfalli, að mati Kristjáns Ólafs Jóhannessonar, sérfræðings á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins (FME). Hann bendir á það í grein sem hann ritar í Fjármálum , nýju vefriti FME að stjórnir bankanna virðast vera meðvitaðar um þessa stöðu sem m.a. komi fram í því að einn stóru bankanna þriggja sá ekki ástæðu til þess að greiða eigendum sínum arð. Tveir bankanna greiddu eigendum sínum óverulegan arð miðað við eiginfjárstöðu þeirra.

Um bankana íslensku segir Kristján Ólafur að fjárhagsstaða bankakerfisins hér á landi einkennist fyrst og fremst af háum eiginfjár- og lausafjárhlutföllum og minnkandi vanskilum. Þá hafi reksturinn einkennst af góðri arðsemi. Þótt hún fari minnkandi verði hún að teljast góð miðað við það eigið fé sem bundið er í bönkunum nú. Sé hins vegar horft á grunnreksturinn er arðsemin lakari.

Kristján skrifar:

„Á Íslandi eins og á meginlandi Evrópu eru ýmis einkenni kerfisáhættu til staðar sem tengjast bankakerfinu. Enn er óvissa tengd losun fjármagnshafta. Verði fjármagnshöftin við lýði til lengri tíma geta þau leitt til hækkunar eignaverðs umfram það sem eðlilegt getur talist, veikari krónu, valdið aukningu á atvinnuleysi, lægri þjóðarframleiðslu auk þess sem aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum yrði erfiðara. Áformaðir  nauðasamningar föllnu bankanna og fjárhagsleg áhrif uppgjörs þeirra á fjármálastöðugleika getaorðið veruleg og í raun lykilatriði fyrir þjóðarhag hverjar verða lyktir þeirra mála. Þá er enn óvissa um endurfjármögnun skuldabréfa nýja Landsbankans gagnvart gamla Landsbankanum. Núverandi staða skapar óvissu á gjaldeyrismarkaði og er mikilvægt að samið verði um endurfjármögnun á skuldabréfunum sem fyrst eða að bankinn fái aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum.“