Jón Þorvarðarson, stærðfræðingur og rithöfundur, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir Birnu Einarsdóttir bankastjóra Íslandsbanka hafa komið að því að stela hugmyndavinnu hans vegna markaðsherferðar sem hann kynnti fyrir bankanum. Um er að ræða herferð Ergo, áður Fjármögnun Íslandsbanka, sem gengur undir nafninu „Reiknaðu með okkur“.

Jón segir að hann hafi lagt bankanum til hgumyndina fyrir nokkrum árum sem Birna rannsakaði ofan í kjölinn ásamt sínu nánasta samstarfsfólki þegar hún gegndi stöðu markaðsstjóra. Hann segist hafa verið boðaður á fund af Birnu og lagt fram kynningarbæklinginn „Reiknaðu með okkur“.

„Innsta kjarna minnar hugmyndavinnu hafði augljóslega verið stolið að áliti þeirra sem til málsins þekkja,“ segir Jón meðal annars í grein sinni. Jón segist hafa sent Birnu og Jóni Hannesi Karlssyni framkvæmdastjóra Ergo erindi þegar hann varð var við að markaðsherferð Ergo var ýtt úr vör. Jón Hann boðaði þá Jón á fund sem hann taldi að ætti að snúast um leiðréttingu á hlut bankans gagnvart sér. „En það var öðru nær, því hann hafði ekki meiri manndóm í sér en að mæta til leiks vopnaður lögfræðingi bankans, sem kom mér algjörlega í opna skjöldu,“ segir Jón.