„Það er ekki mikið að í íslensku samfélagi ef þetta heldur okkur uppteknum í fjóra mánuði. Það er algjör steypa að þetta sé fyrsta frétt viku eftir viku,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og lekamálið í ráðuneytinu. Fram kemur í viðtali við Sigrúnu í Fréttablaðinu í dag að hún virði þá ákvörðun Hönnu Birnu að óska eftir því að stíga til hliðar sem ráðherra dómsmála vegna þessa.

Eins og fram kom á föstudag hefur Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, verið ákærður í lekamálinu og hefur hann verið leystur frá störfum. Gísli Freyr sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins á föstudagskvöld.

Í gær kom svo fram að þingflokkur Pírata hyggist leggja fram vantrauststillögu gegn Hönnu Birnu þegar Alþingi kemur saman í haust. Í Fréttablaðinu segir að þingflokkar eigi eftir að funda til að taka afstöðu til vantrauststillögunnar.

Sigrún segir að sérhver yfirmaður beri ábyrgð á undirmönnum sínum en mikið búið að gerast síðan Gísla Frey var vikið frá og Hanna Birna að vilja stíga til hliðar sem ráðherra dómsmála.

„... en mér finnst blóðhundarnir vilja meira blóð," segir hún.