Hæstaréttardómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson hefði átt að verða varaforseti réttarins fyrir árin 2010 til 2011 og taka við sem forseti Hæstaréttar 2012. Dómaraelítunni við Hæstarétt þótti það ekki fögur framtíðarsýn, að sögn Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt. Hann var sjálfur næstur í röðinni sem varaforseti Hæstaréttar.

Um þetta ritar Jón Steinar í væntanlegri bók sem hann hefur lokið við að skrifa. Bókin heitir Í krafti sannfæringar - saga lögmanns og dómara og kemur út í næstu viku. Kaflabrot úr bókinni birtist í nýjasta tölublaði Þjóðmála.

Erfðafyrirkomulag á forsetaembættinu

Um kjör á varaforseta Hæstaréttar skrifar Jón Steinar:

„Um marga áratuga skeið hafði ríkt það skipulag við kjör forseta Hæstaréttar að dómarar skiptust á um að gegna því starfi tvö ár í senn. Gengu menn til þess í ákveðinni röð eftir starfsaldri, þó þannig að sá sem lét af starfi sem forseti gekk þá inn í röðina og varð á undan þeim sem nýskipaðir voru eftir það. Varaforseti var jafnan kjörinn sá sem skyldi taka við starfi forseta tveimur árum síðar.

Árin 2010–11 var Ingibjörg Benediktsdóttir forseti og Garðar Gíslason varaforseti. Næstur á eftir honum í röðinni átti að koma Ólafur Börkur Þorvaldsson og síðan sá sem hér skrifar. Fyrir lá þegar Ingibjörg og Garðar voru kosin, að Garðar myndi ekki geta tekið við forsetastólnum af henni frá ársbyrjun 2012, þar sem hann varð að víkja úr embætti við sjötugsaldur í október sama ár. Hefði því auðvitað verið eðlilegt að kjósa Ólaf Börk í embætti varaforseta fyrir árin 2010–11, þar sem sýnt var að hann ætti að taka við forsæti réttarins 2012 en varaforsetatíminn er eins konar undirbúningstími fyrir forsetastarfið, eftir því fyrirkomulagi sem ríkti. Þetta hefur dómaraelítunni ekki þótt fögur framtíðarsýn.

Að svo stöddu var þó aðeins tekin sú ákvörðun að kjósa Garðar í embætti varaforseta þessi tvö ár og því skotið á frest að ákveða til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til að koma í veg fyrir að Ólafur Börkur tæki við forsetastarfi í ársbyrjun 2012, svo að ekki sé nú talað um þau hræðilegu ósköp að sá sem hér skrifar yrði þá varaforseti og loks forseti tveimur árum síðar.

Alltaf leggst mönnum eitthvað til. Á árinu 2011 barst réttinum til umsagnar frumvarp til laga um fjölgun héraðsdómara. Var nú ekki tilvalið að nota tækifærið til að leggja til breytingu á fyrirkomulaginu við val á forseta Hæstaréttar svo að hindra mætti þau ódæmi sem framundan voru?

Það var gert. Gamli skólafélagi minn, samkennari og vinur, Árni Kolbeinsson, var látinn flytja tillögu um breytinguna, sem hljóðaði um að kjósa skyldi forseta til fimm ára í senn og varaforseta til jafnlangs tíma. Sjálfum hafði mér lengi þótt þetta erfðafyrirkomulag á forsetaembættinu, sem gilt hafði í marga áratugi, kjánalegt og reyndar áreiðanlega ekki skynsamlegt út frá sjónarmiðum um markvissa stjórnun. Þó að ég vissi vel af hvaða hvötum tillaga Árna var flutt, ákvað ég að styðja hana. Til þess var aðeins ein ástæða. Þeir blessuðu menn, sem fyrir kaldhæðni örlaganna höfðu orðið samstarfsmenn mínir um nokkurra ára skeið, skyldu ekki geta komið mér til að breyta gegn sannfæringu minni um hvað væri almennt séð besta fyrirkomulagið við val á forseta réttarins. Það myndi ég ekki láta eftir þeim. Frumvarp með þessari breytingu var síðan að tillögu Hæstaréttar samþykkt á Alþingi með lögum nr. 12/2011.

Síðan leið nær árslokum 2011 þannig að kjósa þurfti forseta og varaforseta til fimm ára. Þá sendi ég hinn 3. nóvember 2011 tölvupóst til allra hinna dómaranna svohljóðandi:

Ágætu samdómarar. Nú líður að því að kjósa þurfi forseta Hæstaréttar til næstu fimm ára 2012 til 2016. Mér finnst nauðsynlegt að dómarar skiptist á skoðunum um málið, áður en til kosningar kemur. Telja menn til dæmis breytinga þörf á stjórnsýslu hér innanhúss og meðferð annarra mála sem undir forseta heyra frá því sem tíðkast hefur undanfarin ár og jafnvel áratugi? Hverjar væru þá hugmyndir manna um það? Eða er kannski best að breyta sem minnstu?

Þá þarf einnig að huga að því hverjir í dómarahópnum séu fúsir til að gefa kost á sér til embættis forseta. Sækjast kannski einhverjir eftir þessu? Kannski væri réttast að haldinn yrði óformlegur fundur þar sem hægt væri að ræða þetta þannig að allir taki þátt.

Hvað segið þið um þetta?

Ég fékk svar frá einum dómara, Ólafi Berki Þorvaldssyni, en ekkert frá neinum hinna. Ég sendi því ítrekun með sama texta 15. nóvember. Það breytti engu. Enginn þeirra virti mig svars. Hvílíkir samstarfsmenn! Þegar mætt var til fundarins, sem átti að taka ákvörðun um þetta, hafði hún þegar verið tekin. Ljóst var að lokið var samráði og niðurstaða lá fyrir. Þar höfðu aðeins útvaldir dómarar tekið þátt.

Mér hafði svo sem dottið í hug að Markús Sigurbjörnsson myndi sækjast eftir forsetaembættinu, einkum vegna þess að hann hefur sótt í völd og áhrif, ekki einungis í Hæstarétti heldur í dómskerfinu almennt, eins og ég gat um fyrr. Ég mundi hins vegar eftir samtali við hann frá tímanum áður en ég varð sjálfur dómari og við vorum í ágætu talsambandi. Þá hafði hann sagt mér að þessi stjórnunarstörf í réttinum væru hvimleið og íþyngjandi. Kvaðst hann vilja vera sem mest laus við þau. Þetta hafði núna greinilega breyst, því hann lét hina kjósa sig til forsætis og Viðar Má Matthíasson varaforseta til fimm ára. Hinir dómararnir gerðu auðvitað það sem þeim var sagt. Mig minnir að við Ólafur Börkur sætum hjá.