„Við settum brugghúsið Borg á laggirnar fyrir bruggmeistarana okkar. Þar geta þeir leikið sér og prófað sig áfram með nýjan bjór,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Hann og Októ Einarsson voru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins 2013 sem afhent voru við hátíðlega athöfn á milli jóla og nýárs.

Þeir segja í ítarlegu viðtali í tímaritinu Áramótum, sem Viðskiptablaðið gaf út á sama tíma og verðlaunin voru afhent, að tilurð brugghússins skýrist af því að bruggmeistarar Ölgerðarinnar hafi verið að vinna til verðlauna fyrir bjórinn í stóra brugghúsinu og þá vantað í raun og veru leikvöll, litlar græjur, til að þróa bjóra.

„Ef þeir myndu svo hitta á góða bjóra myndum við hefja framleiðslu á þeim í stóra brugghúsinu. Þetta hefur þróast og byggist smám saman upp,“ segir Andri. „Við höfum haft það að markmiði að þróa bjór sem passar með mat. Við höfum viljað leggja okkar af mörkum til að þróa bjórmenninguna á Íslandi. Við settum á stofn gestastofu, en þegar við hönnuðum húsið þá einsettum við okkur að búa til aðlaðandi umhverfi til að taka á móti gestum. Hluti af nútíma markaðssetningu er líka upplifunarmarkaðssetning. Gestastofan er búin að taka á móti 13.000 gestum á þessu tímabili, þar af 8.000 í bjórskólanum. Það munar ekkert smá um þessar heimsóknir. Þó að þetta sé í sjálfu sér ekki stór tala erum við að búa til 8.000 sendiherra sem hafa notið sín við að drekka Gull við bestu aðstæður; alveg ferskan, ískaldan, með réttri froðu og annað slíkt. Þetta höfum við gert samt sem áður með hlutlausum hætti og fengið fagaðila til þess að vera með þessa fyrirlestra. Þetta er enginn heilaþvottur, þarna er ekki bara fjallað um okkar bjóra. Við förum út í Ríkið og kaupum bjóra, athyglisverða bjóra og bjórstíla. Við erum heiðarleg í þessu, markmiðið er bara að búa til góða bjórmenningu,“ segir Andri.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.