Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslyndaflokksins, telur að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi misbeitt valdi til að setja bráðabirgðalög. Björgvin hafi tvívegis sett slík lög án brýnnar nauðsynjar vegna mála sem tengjast kjördæmi ráðherrans sjálfs.

Ummælin féllu á Alþingi í gær þar sem rætt var um frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem sett voru 7. júní síðastliðinn til þess að breyta lögum um Viðlagatryggingu í framhaldi af Suðurlandsskjálfanum, 29. maí.

Meginákvæði laganna snúa að því að lækka lágmarksfjárhæð eigin áhættu þeirra sem verða fyrir bótaskyldu tjóni á innbúi úr 85.000 krónum í 20.000 krónur.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sem setti bráðabirgðalögin, er í leyfi og mælti Össur Skarphéðinsson, iðnaðar ráðherra, fyrir málinu í hans stað. Össur sagði að fyrri viðmiðunarfjárhæð hafi verið talin óeðlilega há vegna þess að hún var bundin vísitölu byggingakostnaðar. Byggingakostnaður hefur hækkað ört undanfarið.

Össur sagði að ríkisstjórnin hefði talið nauðsynlegt að rjúfa vísitölubindinguna, lækka fjárhæðina með afturvirkum hætti og miða þar við 25. maí síðastliðinn til að veita þeim mikla fjölda sem varð fyrir tjóni í Suðurlandsskjálftanum sanngjarnar bætur.

Borist hafa 3.785 tjónstilkynningar eftir Suðurlandsskjálftana. Í 2.080 tilvikum varð tjón á íbúðarhúsnæði en í 2.220 tilvikum tjón á innbúi. Þá liggja fyrir 175 tilkynningar vegna atvinnuhúsnæðis, 160 vegna tjóns á lausafé og 180 á sumarhúsum. Alls hafa 976 eignir verið skoðaðar og 830 milljónir króna verið greiddar í bætur vegna innbústjóna en 822 milljón króna vegna 314 fasteignatjóna. Uppgjöri vegna 202 fasteignatjóna er ólokið.

Breytingin gæti því haft í för með sér allt að 143 milljóna króna aukna greiðslu úr Viðlagasjóði. Lagasetningin leiðir ekki til beinna útgjalda úr ríkissjóði, að mati fjármálaráðuneytisins.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .