Breskir bankar munu þurfa að afla sér umtalsverðu nýju fjármagni eða selja eignir til að rétta við eiginfjárstöðu sína, að mati fjármálastefnunefndar Englandsbanka. Nefndin segir að bankar og sparisjóðir noti ýmsar leiðir til að blása upp bókfært eigið fé sitt, m.a. með því að vanmeta áhættu tengda ákveðnum eignaflokkum og með því að afskrifa ekki vanskilalán.

Þá hafa ekki allir bankar lagt til hliðar fé til að mæta bótakröfum viðskiptavina, sem keyptu vörur sem ekki hentuðu þeim, eða til að greiða sektir vegna Libor-hneykslisins svokallaða.

Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, sagði að ganga þurfi úr skugga um að eiginfjárhlutföll í reikningum banka og fjármálafyrirtækja gefi rétta mynd af fjárhagslegu heilbrigði þeirra. Ástæður séu til að draga í efa að svo sé. Nefnd Englandsbanka hefur ekkert formlegt vald til inngripa, en mun skila tillögum til fjármálaeftirlitsins í Bretlandi, FSA.