Ný búvörusamningur er dauðadómur yfir rekstri sjálfstæðra afurðastöðva í mjólkuriðnaði og alvarleg aðför að hagsmunum íslenskra neytenda, að mati Ólafs M. Magnússonar framkvæmdastjóra hjá Kú mjólkurbúi.

Í tilkynningu frá Ólafi segir að í nýjum búvörusamningi sé Mjólkursamsölunni fært allt verðlagningarvald á sama tíma og greinin fái stóraukin framlög úr ríkissjóði og hagsmunir neytenda séu á engan hátt tryggðir. „Hagsmunum sjálfstæðra afurðastöðva er algjörlega kastað fyrir róða með þessu fyrirkomulagi og MS hefur því í hendi sér afkomu og afdrif þessara fyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt sé skjalborg slegin um undanþágur Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum, sem sé undarlegt þar sem MS sé til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA.

Ólafur segir einnig að í samningnum sé gefið fyrirheit um að hækka tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir og að Verðlagsnefnd sé í raun ekki lögð niður heldur sé hún nú kölluð „opinber aðili“.

„Nýr búvörusamningur er því áfall og vonbrigði fyrir þá aðila sem höfðu vonast til þess að viðskiptaumhverfið í mjólkuriðnaði yrði fært til nútímahorfs. Samningurinn er síðast ekki síst alvarlega aðför að íslenskum neytendum sem verður nú gert að greiða rangar ákvarðanir stjórnenda MS fullu verði í form stórhækkaðs vöruverðs.“