*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 1. maí 2018 14:58

Segir byltingaleiðina skerða lífskjör

Forseti ASÍ segir byltingasinna sögulega hafa leitt kjarabaráttuna í ógöngur. Undanfarin ár hafi kaupmáttur aukist, en að stjórnvöld hafi stolið þeim árangri af þeim lægst launuðu.

Ritstjórn
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Haraldur Guðjónsson

Byltingarsinnar hafa í gegnum sögu verkalýðshreyfingarinnar leitt kjarabaráttuna í ógöngur með himinháum prósentuhækkunum á launum. Á hinn bóginn hafi hægfara og stöðugar breytingar á kjörum og réttindum vinnandi fólks bætt kaupmátt og lífskjör í landinu. Þrátt fyrir það hafa stjórnvöld að miklu leyti stolið þeim árangri frá þeim lægst launuðu, en því verður ekki breytt nema með samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar.

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í ávarpi sínu á verkalýðsdaginn.

Í ávarpinu ber Gylfi saman tvær leiðir sem farnar hafa verið á Íslandi frá upphafi skipulagðrar verkalýðshreyfingar. Annars vegar hafi hreyfingin einkennst af „byltingaleiðinni“ og hins vegar „umbótaleiðinni“.

„Þar hafa deilt umbótasinnar sem vilja hægfara en stöðuga breytingu á kjörum og réttindum launafólks og þeir sem vilja fara mun harðar og í hraðari breytingar á aðstæðum, oft nefndir byltingasinnar,“ segir Gylfi. „Með umbótaleiðinni vinnur verkalýðshreyfingin að því að tryggja launafólki réttmæta hlutdeild í þeim verðmætum sem verða til í samfélaginu. Með byltingaleiðinni snýst hlutverk hreyfingarinnar að tryggja launafólki eins miklar launahækkanir og afl hennar fær áorkað hverju sinni.“

Laun hækkuðu yfir 1.000%, en kaupmáttur minnkaði

Gylfi segir byltingaleiðina hafa verið farna á árunum 1961 til 1990. Það tímabil hafi einkennst af tugprósenta launahækkunum á hverju ári, sem forystumenn verkalýðshreyfingarinnar náðu fram. Á sama tíma tilkynnti ríkisstjórnin gengisfellingu krónunnar. Ólga og átök einkenndu tímabilið þar sem verðbólga lék lausum hala og atvinnulífið var einhæft og brothætt. Kjörin stóðu nánast í stað eða versnuðu.

Árið 1990 hafi orðið kaflaskil í kjarabaráttunni með Þjóðarsáttasamningnum, þar sem áhersla var lögð á hægfara umbótastefnu. Hreyfingin tók þá tillit til aðstæðna í hagkerfinu, tryggði launafólki réttmæta hlutdeild í verðmætasköpuninni, en forðaðist kollsteypur í gengi og verðlagi.

Gylfi segir að frá þeim tíma hafi verðbólga verið lág og lífskjör Íslendinga batnað umtalsvert meira en á ólgutímum byltingaleiðarinnar. „Það sýna allir mælikvarðar. Vill einhver hverfa aftur til gömlu leiðarinnar?“ spyr Gylfi.

Þó nokkur reiði og ólga hefur verið innan ASÍ undanfarin misseri. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa til að mynda sagt að formannskjör þeirra sýni að fólk vilji byltingu með nýrri forystu og róttækari áherslum í verkalýðsbaráttunni.

Stjórnvöld stálu árangrinum

Gylfi bendir á að hlutfall lægstu launa af meðaldagvinnulaunum innan ASÍ séu í dag að nálgast 80%, á meðan hlutfallið var 50% í kringum 1990. Þannig hafi verkalýðshreyfingunni tekist frá aldamótum að hækka lægstu launin í landinu um 36% meira en almenn laun í landinu – á sama tíma og lífskjör hafa batnað.

Hins vegar hafi stjórnvöld að miklu leyti stolið þeim ávinningi. Segir Gylfi að skattar á þá lægst launuðu í samfélaginu hafi hækkað með og barna- og húsnæðisbætur til hans verið verulega skertar. Á sama tíma hafi stjórnvöld lækkað skatta á þá efnameiri og leyft kjararáði að hækka laun þingmanna og æðstu embættismanna langt umfram það sem almennt hefur verið samið um á vinnumarkaði. Þetta sé þróun sem sé hvorki réttlát né siðleg og að hana verði að stöðva.

„Það er hins vegar alveg ljós, að við getum þetta ekki nema að við stöndum saman,“ segir Gylfi.