*

þriðjudagur, 19. október 2021
Erlent 26. júlí 2017 12:01

Segir Cook hafa lofað nýjum verksmiðjum

Donald Trump segir forstjóra Apple hafa lofað sér því að fyrirtækið myndi reisa þrjár stórar verksmiðjur í Bandaríkjunum.

Ritstjórn
epa

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagði í gær að Tim Cook, forstjóri Apple hafi lofað sér því að fyrirtækið myndi reisa þrjár nýjar verksmiðjur í Bandaríkjunum. Þetta sagði Trump í viðtali við Wall Street Journal. Hann greindi ekki frá hvar eða hvenær verksmiðjurnar myndu rísa.

„Ég ræddi við herra Cook og hann lofaði mér þremur stórum verksmiðjum, fallegum verksmiðjum, stórum, stórum, stórum," sagði forsetinn orðrétt. Þá greindi Trump einnig frá því að hann hafi sagt við Cook: „Tim, ef þú byrjar ekki að reisa Apple verksmiðjur í Bandaríkjunum þá mun ég líta svo á að ríkisstjórn mín hafi ekki náð árangri í efnahagsmálum."

Eru þetta fyrstu ummæli Trump um Apple frá því að hann varð forseti Bandaríkjanna síðasta haust. Hann hefur áður gagnrýnt fyrirtækið fyrir að færa framleiðslu sína frá Bandaríkjunum til Kína. Eftir að Trump var kjörinn forseti sagði hann við í viðtali við Time að hann vildi að „Apple myndi reisa stóra verksmiðju í Bandaríkjunum , þá stærstu og bestu, jafnvel þó hún væri bara feti stærri en verksmiðjurnar í Kína."

Samkvæmt frétt Wall Street Jorunal neituðu forsvarsmenn Apple að tjá sig um ummæli forsetans. Ummælin eru þó talin merki um aukinn þrýsting á fyrirtækið um að færa framleiðslu sína frá Asíu til Bandaríkjanna. Apple er nú þegar með 80.000 starfsmenn í Bandaríkjunum en einungis lítill hluti af framleiðslu á vörum fyrirtækisins fer fram í landinu.