Undirbúningur er hafinn að því að flytja höfuðstöðvar upplýsingafyrirtækisins Creditinfo úr landi. Ástæðan er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og drga umsókn Íslands að því til baka.

Í netritinu Kjarnanum segir að Reynir Grétarsson, stærsti eigandi Creditinfo og einn stofnenda fyrirtækisins, hafi sent tölvubréf til þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í kjölfar þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um viðræðuslitin. Í bréfinu hvatti Reynir ráðherrana til að grípa til aðgerða til að bæta stöðu íslenskra fyrirtækja með alþjóðlega starfsemi og tilkynnti um ákvörðun Creditinfo að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Í Kjarnanum segir að ráðherrarnir hafi ekki svarað bréfi Reynis.

Hjá Creditinfo starfa um 300 manns í 17 löndum. Þar af eru starfsmennirnir um 60 hér á landi.