Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segist hafa heimildir fyrir því að Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hafi komið í veg fyrir ráðningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem forstjóra Hörpu.

Sem kunnugt er sótti Þorgerður Katrín um forstjórastöðu Hörpu sem nýlega var auglýst. Stöð 2 greindi frá því fyrr í sumar að meirihluti stjórnar hefði verið sammála um að ráða Þorgerði Katrínu úr hópi umsækjenda en fallið frá því á síðustu stundu. Halldór Guðmundsson, rithöfundur og bókmennafræðingur, var ráðinn þess í stað.

Í pistli sem Hannes Hólmsteinn birtir á Pressunni í dag segir hann að Dagur B. hafi sem formaður borgarráðs beitt sér gegn því að Þorgerður Katrín yrði ráðin í stöðuna.

„Eitt furðulegasta stjórnsýslumál síðari tíma [...] að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leikaradóttir, lögfræðingur og fyrrverandi útvarpskona, alþingismaður og menntamálaráðherra, var ekki valin úr hópi umsækjenda til að veita menningarhúsinu Hörpu forstöðu,“ segir Hannes Hólmsteinn í pistli sínum.

„Hafði þó meiri hluti stjórnar menningarhússins ákveðið að styðja Þorgerði Katrínu til starfsins, enda er hún með þá menntun, reynslu af mannaforráðum og hæfileika í mannlegum samskiptum, sem allt er nauðsynlegt í þetta vandasama starf. Hver kom í veg fyrir ráðninguna? Heimildarmenn mínir, sem ég tel áreiðanlega, segja, að það hafi verið Dagur Bergþóruson Eggertsson. Hann ræður sem kunnugt er öllu í borgarstjórn, þótt Jón Gnarr sé skráður borgarstjóri, og Dagur setti hnefann í borðið: Engin samvinna verður milli menningarhússins og Reykjavíkurborgar, ef Þorgerður Katrín er ráðin. Eftir það treysti stjórnin sér ekki til að ráða Þorgerði Katrínu. Þess í stað vildi Dagur ráða Halldór Guðmundsson, sem er innsti koppur í búri Samfylkingarinnar (og vissulega um margt hæfur maður), og varð það úr.“

Þá segir Hannes Hólmsteinn að lokum:

„En þögn femínistanna, sem sitja á fullum launum í Háskólanum við að telja kynjaskiptingu á ýmsum sviðum mannlífsins, er ekki síður æpandi en stjórnsýsluspekinganna á sama stað: Eiga kröfur femínista um, að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum, aðeins við um vinstri sinnaðar konur?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrv. menntamálaráðherra.