Umræðan um meinta framúrkeyrslu ákveðinna ríkisstofnana, í kjölfar birtingar árshlutauppgjörs um fjárreiður ríkissjóðs, hefði mátt verið yfirvegaðri, enda hafi ekki verið nærri eins mikil ástæða til upphlaups þegar málið var skoðað betur. Þetta kemur fram í pistli Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB.

Elín segir dapurlegt að fylgjast með þeim ofsa sem einkennt hefur umræðu formanns fjárlaganefndar um störf opinberra starfsmanna og vilja hennar til að minnka starfsöryggi þeirra. Hún bendir á að áður en skýringa vegna framúrkeyrslu var leitað hjá tilteknum ráðuneytum hafi talið borist að breytingum á starfsmannalögum svo auðveldara væri að víkja fólki úr starfi.

Þá segir Elín að formaður fjárlaganefndar hafi gerst sek um alls kyns rangfærslur sem ekki eigi við rök að styðjast. Margar stofnanir hafi þurft að skera mikið niður á yfirstandandi fjárlagaári og m.a. þurft að segja upp starfsfólki. Verkefnum stofnana hafi á sama tíma ekki fækkað og víða hafi þau aukist.