Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari hefur ritað grein um dóminn yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Greinin verður birt í næsta tölublaði Tímarits lögfræðinga og fjallar hún um dómsmorðið á Baldri. Baldur hlaut tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrravor og staðfesti Hæstaréttur hann í febrúar á þessu ári. Hann var ákærður fyrir meint innherjasvik og brot í opinberu starfi í apríl í fyrra. Hann sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt eftir miðjan september 2008 fyrir 192 milljónir króna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá lýkur Baldur afplánun sinni á Vernd og sinnir hann störfum á lögmannsstofunni Lex. Vinnan þar er hluti af afplánuninni.

Í DV í dag er haft eftir Gunnlaugi Jónssyni, syni Jóns Steinars, að dómurinn sé blettur á íslensku réttarfari, framið af fólki sem var búið að missa skynbragð á rétt og rangt.

„Í samfélagi sem kallaði á blóð, þótt saklaust blóð væri. Í samfélagi sem þykist svo hafa áhyggjur af réttarfari í öðrum löndum, eins og Rússlandi. Baldur var hentugt fórnarlamb. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að heldur vildi ég vera Baldur en þeir sem svona dæmdu og tóku þátt í þeim ofsóknum. Afplánun hans lýkur en aldrei þeirra skömm.“

Í DV kemur jafnframt fram, að Baldur og Jón Steinar séu aldavinir. Jón Steinar verður 65 ára í lok mánaðar og mun hætta sem dómari í kjölfarið.