„Sængurnar bera nöfn landsþekktra kinda og hulduhrúta. Draumsvefn þeirra sem nota þær verða lengri en annarra,“ segir Anna Þóra Ísfold, sem bar sigur úr býtum í keppni um bestu viðskiptahugmyndina á Atvinnu- og nýsköpunarhelgi Innovit og Landsbankans á Akureyri um síðustu helgi. Sængurnar eru úr íslenskri mislitri ull sem yfirleitt er ekki nýtt í lopagerð eins og einlita ullin.

Anna segir í samtali við vb.is að ullarsængurnar hafi orðið til upp úr vangaveltum hennar um það hvernig hún gæti orðið orkumeiri yfir daginn. Hún las sér til um gæði erlendra ullarsænga og komst að raun um að þær eru framleiddar víða um heim en ekki hér. Sjálf hefur Anna síðastliðið hálft árið notað ullarsæng sem framleidd er í Austurríki.

Anna segir marga kosti fylgja sæng úr ull. „Ullarsængin jafnar hita, hleypir raka út og gerir svefninn betri. Svo eru þær góðar fyrir gigtveika.“

Sængurnar munu að sögn Önnur verða á svipuðu verði og anda- og fiðurdúnssængur.

Frjósamar sængur

Anna stefnir á að framleiða bæði sængur, kodda, teppi og sokka úr ullinni íslensku undir merkjum Isfold. En það er ekki bara ullin sem tengir vörurnar við Ísland heldur munu þær bera nöfn þekktra ferfætlinga.

Sængurnar munu bera nöfn á borð við Þoka og Angi, koddarnir Þoka og Hnakki og barna- og ungbarnasængurnar Blíða og Lauf. Allar vörurnar bera nöfn sögufrægra kinda og hrúta, segir Anna.

„Þoka frá Smyrlabjörgum var uppi í kringum 1950. Hún er fræg því undan henni komu frjósamar kindur sem urðu þrí- og fjórlembdar. M.a. kom undan henni hrúturinn Angi sem var notaður til sæðingar víða um land. Þokukynið í íslenska sauðfjárstofninum er komið frá henni.“

Anna segir erfitt að framleiða sængur úr ull hér á landi og á hún nú í viðræðum við erlent fyrirtæki um framleiðslu á þeim.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)