Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, segir að fjárfest sé í áliðnaði til lengri tíma. Það sé ljóst að á áratugum verði miklar sveiflur í verði á áli og í augnablikinu sé álverðið lágt. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið síðasta ár og nemur lækkunin um 23% frá því í ágúst á síðasta ári. Pétur segir í samtali við Fréttablaðið að árið í fyrra hafi í sjálfu sér verið ágætt fyrir álið í heiminum en alltaf sé óvissa á mörkuðum. Nú séu blikur á lofti í efnahag Evrópu vegna Grikklands auk þess sem Kínverjar hafi leitað fyrir sér með útflutning á áli.

Pétur segir hins vegar að góðu fréttirnar séu þær að eftirspurn sé að aukast mjög hratt og mun hraðar en spár hafi gert ráð fyrir. Hún hafi á fáum árum farið úr 40 milljónum tonna í um 60 milljónir, sem náist væntanlega á þessu ári eða næsta.

„Það er gríðarleg eftirspurnaraukning sem er meðal annars knúin áfram af kröfu stjórnvalda um að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda í bílaflotanum. Það er bara ein leið til þess og það er að létta bílana og fyrir vikið hafa bílaframleiðendur verið að nota ál í miklu meiri mæli en áður og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Það eru því heilbrigðismerki á álmarkaðnum,“ segir Pétur.