Fasteignamarkaðurinn er ennþá undirverðlagður, að mati Sölva Blöndal, sjóðsstjóra sjóðanna Centrum og Eclipse hjá Gamma. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að þó verði að taka tillit til þess að hækkun fasteignaverðs miðsvæðis í Reykjavík hafi verið meiri en annars staðar. Sölvi segir ekkert benda til þess að það sé verðbóla á markaðnum. Hann sjái ennþá kauptækifæri á þessum markaði.

Sjóðirnir tveir sem hann stýrir halda utan um íbúðafjárfestingar Gamma og hafa fjárfest í um 400 leiguíbúðum og eiga Leigufélag Íslands. Íbúðafjárfestingar Eclipse og Centrum nema um sjö milljörðum króna, að sögn Sölva.

Centrum hefur einkum keypt íbúðir í miðbæ Reykjavíkur og vesturbænum, en Eclipse á að fjárfesta í haganlega staðsettum íbúðum í úthverfum borgarinnar.